Dróninn fór í höfnina fyrir flugmannsmistök
Jón Steinar Sæmundsson er 49 ára gamalll uppalinn Grindavíkingur. Hann er fæddur vestur á Ísafirði árið 1969 en flutti ársgamall til Grindavíkur og býr hér með eiginkonu sinni Helgu Ólínu Aradóttur. Við í Vísi höfum hlotið þeirra gæfu að hafa hann starfandi hjá okkur í rúm 20 ár. Jón Steinar er orðinn þekktur fyrir ljósmyndahæfileika sína og Facebook síðuna Bátar og bryggjubrölt sem hann heldur úti. Bátar og bryggjubrölt fór í loftið fyrir um þremur árum og hefur aldeilis slegið í gegn og er með 5.500 fylgjendur. Auk þess hefur BBC beðið um að fá að nota myndefni frá honum í þáttum sínum um inn- og útflutning til Bretlands. Aðspurður segist Jón Steinar hafa farið á eitt ljósmyndanámskeið en sé að öðru leyti sjálflærður þar sem hann hefur eytt heilu kvöldunum og nóttunum í að fínpússa ýmis stillingaratriði.
Ljósmyndaáhuginn kviknaði við fermingu
Jón Steinar hefur alltaf haft áhuga á ljósmyndun og fékk hann kodak polaroid myndavél í fermingargjöf og notaði hana grimmt að eigin sögn. Frá því hefur hann átt litlar vasamyndavélar eins og hann kallaði þær en langaði alltaf í almennilega vél. Það var ekki fyrr en um 2012 sem hann keypti sér sína fyrstu alvöru vél og þá var ekki aftur snúið.
„Mér langaði alltaf að kaupa mér svona stórar vélar eins og sumir voru með. En maður var á þessum tíma að koma upp fjölskyldu og svona og þá var ekki alltaf til peningur til að vera að spandera í einhverjar dýrar myndavélar”.
Aðspurður að því hvað hann sé helst að mynda segir hann:
,,Báta, ég er náttúrulega algjört bátanörd, það er svona helst það sem ég er að mynda og jú líka landslagsmyndir. Mér finnst líka gaman að hafa fróðleik með og hef orðið var við að fólk hefur gaman af, eins og t.d. með fréttir af endurbætum eða eitthvað svoleiðis þá finnst mér gaman að geta sagt meira frá því. Myndir segja helling en ekki allt”.
Hvernig kom til að þú byrjaðir með síðuna Bátar og bryggubrölt?
„Hugmyndin kviknaði nú ekki frá mér sjálfum. Frændi minn var með báta heimasíðu og búinn að vera með bátadelluna í mörg ár. Svo hefur vinsældum vefsíðna dalað og allt búið að færast meira inn á Facebook. Við hittumst svo einn daginn og hann sagði mér að hann væri að hætta með hana og ætlaði kannski að færa sig yfir á facebook. Ég hafði stundum verið að senda honum myndir til að birta á sinni síðu. Þegar hann stofnaði svo síðuna gerði hann mis að stjórnanda líka og svo hefur hann eiginilega ekkert verið virkur. Hann hefur verið upptekinn af að stofna fyrirtæki og annað svo ég tók bara þannig séð yfir síðuna og hann skýtur inn einni og einni mynd“.
Það kom Jón Steinari á óvart hversu góðar viðtökur síðan fékk og hversu margir fylgja síðunni en fylgjendur hennar eru frá 43 mismunandi löndum svo það er augljóst að hún nær víða.
„Það eru yfirleitt makrílbátarnir sem fá mesta áhorfið. Eitthvað sem manni finnst vera ósköp venjulegt en útlendingum finnst það rosalega magnað. Áhorfið hefur farið allt upp í 260 þúsund manns. Sement skipið sem strandaði í Helguvík fyrir 2-3 árum síðar fékk mikið áhorf . Þá hittist það þannig á að ég skildi ekkert í því að á einum sólarhring höfðu 60 þúsund manns skoðað myndbandið. Þá var þetta strandferðarskip frá nýja Sjálandi og hafði sterkar taugar þar, þangað til það var selt til Noregs. Og í hvert sinn sem ég set inn eitthvað tengt því þá skoðar fullt af fólki þetta. Það er gaman að þessu þegar maður fær svörun, og feedback og fólk hefur áhuga. Maður er ekki að hagnast á þessu þannig. En þetta er gaman, og þannig hefur þetta spurst út.“
,,Ég fæ spurningar frá ótrúlegustu stöðum hvort ég sé með síðuna og að fólk sé að fylgjast með henni. Fyrirtæki deila stundum myndunum, eins og með nýja Vörð sem kom á dögunum þá var fyrirtækið sem hannaði lýsinguna um borð sem deildi myndunum áfram. Það gefur manni smá boost að halda áfram, að fólki finnst gaman að fylgjast með þessu. Svo tók ég eftir að það voru óvenju mikið af kvenfólki í byrjun sem virtist hafa áhuga á þessu, ég er nú ekki að segja að þær hafi ekki áhuga, en einhverjar voru að kommenta sem ég vissi nú ekki að þekktu til þá var maðurinn búinn að yfirtaka facebookið hjá konunni til þess að skoða þessa síðu og skrifaði í hennar nafni. Til dæmis að segja ,, þessi vél var í þessum bát sem að gerði eitthvað eða eitthvað í þá átt.“
„Grindavíkur síðan hefur svo fengið myndir hjá mér. Mér finnst það gaman og lít á það sem nokkurn veginn mitt samfélagsverkefni, að auglýsa bæinn minn. Ég er stoltur af því og hef ekki verið að selja þeim myndirnar þótt maður selji eina og eina mynd til fyrirtækja en hef litið á þetta sem mitt samfélagslega verkefni. Ég er svona nýlega farinn að taka eitthvað fyrir myndir. Þegar einstaklingar eða fyrirtæki nota þær til að hagnast á þeim þá er ég farinn að taka eitthvað fyrir enda fer oft mikill tími og finna og vinna myndirnar.“
Hvernig er týpískur dagur hjá ljósmyndaranum?
,,Hann byrjar nú fyrst snemma á morgnanna á að mæta í vinnu upp úr sex. Svo er það mjög oft þegar ég fer heim þá sé ég á kortinu í appinu „Marine traffick“ hvort það séu bátar að koma í land. Þá gríp ég dótið og stekk út. Fer einhvern hring að mynda, hvort sem það er niður á bryggju eða á kamb. Eða labba eitthvað og tek landslagsmyndir ef það er gott veður. Það er kostur við þetta að það dregur mann út. Maður þarf að labba aðeins, yfir hól og svona til að sjá hitt og þetta.
Þetta tekur oft hellingstíma, iðullega í tölvunni og að vinna og finna myndirnar. En þetta er gaman, þetta er mitt hobbí, mitt fjórhjól, krossari eða veiðidella. Konan styður mig í þessu sem betur fer, enda fer mikill tími í þetta og gæti nú valdið deilum á einhverjum heimilum.“
Dróninn sem fór í höfnina fyrir flugmannsmistök
Jón Steinar hefur verið að notast við dróna sem gefur öðruvísi sýn og vídd og lýsir hann því sem þriðju víddinni þegar hann er að skoða ýmsa hluti að ofan sem maður sér ekki niðri á jörðinni.
,,Ég er búinn að vera með tvo dróna. Ég klessti einum, lenti í árekstur við bát , við Sighvat. Þetta var fyrir klaufaskap í mér, ég gerði smá flugmannsmistök og tapaði þeim dróna beint í höfnina. Ég var að fylgja nýjum Einhamars bát eftir hérna inn höfnina, á kambi hinum megin. Svo horfi ég bara á skjáinn og flýg eftir honum og sný á hlið og svo bara verður allt svart. Um leið og ég leit upp þá sá ég að Sighvatur var að fara út. Og tapaði drónanum beint í sjóinn. Ég var mest svekktur yfir að hafa tapað minniskortinu með öllum myndunum í fullum gæðum. Það fór allt í sjóinn. En maður lærir af mistökunum. En ég fór strax daginn eftir og keypti mér nýjan reyndar og hef verið með hann síðan.“
Er eitthvað skemmtilegt eða furðulegt atvik sem stendur upp úr þegar þú hefur verið að mynda?
„Ég hef nú séð allskonar, minka, tófur, fiska og allskonar í fjörunni. En einu sinni gekk ég fram á allsnakin kvenmann út í fjöru. Ég var með afastráknum að reyna að mynda Pál Jónsson sem var að koma í höfn fyrir sjómannadaginn. Þegar ég kem niður í fjöru eru þær fullklæddar og ég heilsa þeim og fer niður í flæðamálið að taka myndir. Svo þegar ég sný mér við þá heyri ég eitthvað skrjáf og ein er orðin allsnakin búin að klæða sig inn í plast og veifar höndunum einhvern veginnn og hin er að taka myndir. Afa strákurinn hefur aldrei horft svona vel niður fyrir lappirnar á sér þegar við erum að labba til baka og ég stóðst ekki mátið og smellti einni. Ég hugsaði að ef ég segi frá þessu þá trúir mér enginn. Þetta er það furðulegasta sem ég hef séð, skrítnasta og fyndnasta. Þetta voru víst þjóðverjar á ferð því einhverjir fleiri höfðu orðið varir við þessar konur sem voru víst mæðgur.“
BBC hafði samband
BBC var á Íslandi að gera þátt um inn- og útflutning til og frá Bretlandi, þar sem fjallað var um Ísland. Tökuliðið var búið að koma til Íslands og taka upp en var bent á myndefnið hans Jón Steinars og þeim leist betur á það en sitt eigið. BBC hafði því samband við Jón Steinar til að fá að nota efni frá honum.
,,Já það var núna um daginn og já er soldið montinn af því. Ísland var til umfjöllunar í 5-6 mínútur og þeir vildu nota efni frá mér. Þeir sáu líklegast myndbönd á bátasíðunni hjá mér og fannst það vera jafnvel betra en þeirra og óskuðu eftir að fá hjá mér ákveðin myndbönd. Maður er alveg búinn að æfa sig og kannski ekki margir sem eru að nota dróna til að fylgja bátunum langt út á sjó. Kannski hittist líka bara þannig á að það var ekki gott veður þegar þeir voru hérna að taka upp eða eitthvað þannig maður veit ekki.“ segir hann hógvær.
Ljósmyndaáhuginn kemur oft í bylgjum.
„Maður er kannski virkur í einhvern tíma, svo dalar þetta í nokkra daga og þá fer manni að klæja í fingurnar að fara að taka myndir aftur. Gæti trúað að þetta sé eins og veiðidellan hjá mörgum. Hreyfi ekki við dótinu í viku svo fæ ég alveg svona að ég þurfi að komast aftur af stað. Hugsa stundum þegar það er skítaveður að það sé ekkert að sjá úti, og skil myndavéladótið eftir heima en fer á rúntinn og svo sé ég eitthvað. Þannig núna tek ég alltaf vélarnar með mér. Þótt ég sé bara að þvælast eða á rúntinn. Það dettur alltaf eitthvað inn. Eitthvað flott í landslaginu, fugla eða dýr eða eitthvað.“
„Á veturnar eru dagurinn styttri en þá detta inn norðurljósin. Þá fer maður í vinnu í myrki og heim í myrkri en þá reyni ég að nýta dagana og ná myndum af bátunum í björtu. Ég fæ stundum að stökkva úr vinnunni og sækja myndavélina og taka myndir. Sem betur fer sýna þau því skilning, þá er þetta svona hálftíma, kannski klukkutími. Ég gerði samning við Vísi að þau meiga nota myndirnar og fékk þannig smá styrk hjá þeim, gaman að því og segir að maður sé að gera eitthvað rétt líka. Það er líka gott að fá hvatninguna“
Við þökkum Jón Steinari fyrir gott spjall. Gaman að að sjá og heyra hversu hugfanginn hann er af ljósmyndun og hvað hann leggur mikinn metnað í að gera það vel og leyfir þannig öðrum að fylgjast með bátalífinu á höfninni. Við höfum fengið að nota efni frá honum til að kynna fyrirtækið og erum afar stolt af honum og fallegu myndunum sem hann tekur.