Ábyrgur sjávarútvegur í sátt við umhverfi og samfélag
Fyrirtæki innan vébanda Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hafa markað sér stefnu í samfélagsábyrgð sem grundvallast á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Með undirritun samþykkja fyrirtækin að innleiða stefnuna í rekstur sinn og reglulega verður metið hvernig fyrirtækjum tekst upp í þeirri vinnu.
Vísir fagnar þessu sameiginlega verkefni fyrirtækja í sjávarútvegi. Þetta eru ákveðin tímamót, að heil atvinnugrein ákveði að fara í svona verkefni og bera þannig ábyrgðina saman gagnvart hafinu og lífríki þess. Það er mikilvægt að hugsa þetta til langtíma og stuðla að sjálfbærni hafsins. Þetta er leið til betri framtíðar sem allir njóta góðs af.
Erla Ósk Pétursdóttir mannauðsstjóri kemur fram fyrir hönd Vísis í kynningarmyndbandi SFS um verkefnið, þar segir hún :
„Við teljum það afar mikilvægt að við setjum okkur þessa samfélagsstefnu. Það var aldrei vafi að skrifa undir og við hlökkum til að halda áfram með verkefnið.“
Heimsmarkmiðin eru flokkur markmiða sem saman stuðla að betri heimi fyrir alla. Eitt af markmiðum þess er að vernda og nýta hafið og auðlindir þess á sjálfbæran hátt í því skyni að stuðla að sjálfbærri þróun. Markmiðin taka til alls heimsins og ber ríkjum að ná þeim innan fimmtán ára eða fyrir 2030. Á heimasíðu Samtaka í Sjávarútvegi segir „Íslenskur sjávarútvegur tekur hlutverk sitt alvarlega sem framleiðandi matvæla og ein af burðarstoðum efnahagslegrar hagsældar þjóðarinnar. Undirritun er ekki endirinn heldur upphafið að vegferð til að gera sjávarútveginn betri. Þótt verkefnin og markmiðin séu margþætt, og fyrirtækin komin mislangt á veg, hafa þau í sameiningu ákveðið að fylgja ákveðinni stefnu. Hún verður það leiðarljós sem samfélag, umhverfi og fyrirtæki munu njóta góðs af þegar lagt verður af stað til móts við framtíðina.“