Árið byrjar vel hjá línuskipum Vísis

Sighvatur GK. Ljósm. Jón Steinar Sæmundsson
Sighvatur GK. Ljósm. Jón Steinar Sæmundsson

Línuskip Vísis í Grindavík, Páll Jónsson GK og Sighvatur GK, byrja árið ágætlega. Páll Jónsson fór í stuttan túr í upphafi ársins og landaði sl. mánudag. Sighvatur er hins vegar að landa í fyrsta sinn á árinu í dag. Benedikt Jónsson, skipstjóri á Páli Jónssyni, lét vel af fyrsta túrnum. “Þessi fyrsti túr ársins var stuttur og ágætur í alla staði. Þetta var einungis þriggja lagna túr og aflinn var um 60 tonn. Það var farið stutt en við lögðum við Hópsnesið einungis 15 mínútur frá höfninni í Grindavík. Þarna fékkst mjög góður fiskur, mest þorskur og ýsa. Meðalvigt þorsksins var rúm fjögúr kíló og ýsunnar um tvö kíló. Þetta var fiskur sem hentar afar vel í vinnsluna,” sagði Benedikt.

Óli Björn Björgvinsson, skipstjóri á Sighvati, lét einnig vel að sér þegar spurt var um aflabrögð í upphafi árs. “Í þessum túr byrjuðum við á að leggja tvær lagnir úti á Eldeyjarbanka. Þar var ekki mikið að hafa svo við færðum okkur á Skerin og þar fékkst ágætur afli. Síðan var farið suður á Fjöll. Þar voru teknar tvær lagnir og aflinn var mjög góður. Á Fjöllunum fékkst risafiskur; þorskur, langa og keila. Við þurfum að blanda aflann verulega þannig að aflinn á Fjöllunum hentaði vel. Aflinn í veiðiferðinni var 80 tonn, mest þorskur, langa og ýsa. Í reyndinni var fínt veður allan túrinn. Við fengum tímabundna kaldafýlu en það var ekkert alvarlegt,” sagði Óli Björn.

Sighvatur hélt til veiða á ný í gærkveldi.