Gestum og gangandi boðið að skoða nýja Pál Jónsson í dag
Von er á nýsmíðinni Páli Jónssyni GK 7 um hádegisbil í dag. Áætlað er að búið verði að tollafgreiða skipið um kl 15:00 og er þá gestum og gangandi boðið að koma að skoða skipið og þiggja kaffi og kleinur. Nú eru rúmlega 2 ár liðin frá undirritun og stór áfangi fyrir Vísi að fá skipið í heimahöfn.
Þetta er fyrsta nýsmíðin af þessarri stærðargráðu í rúmlega 50 ára sögu Vísis. Þetta er glæsilegt þriggja þilfara nýsmíði, 45 metra á lengd og 10,5 metra á breidd, hannað af íslensku skipahönnunarstofunni Navis í samvinnu við Vísi. Skipið er með Mustad Autoline línukerfi frá Ísfell ehf. og er þar með fyrsta íslenska skipið með sjálfvirku rekkakerfi sem léttir á álagi og vinnu um borð. Vinnslubúnaðarinn, sem mun bæta alla aflameðhöndlun, svo sem blæðingu, kælingu, flokkun og frágang afla í lest er frá Skaginn 3X og er verkefnið að hluta til unnið í samstarfi við Marel. Það ríkir mikil tilhlökkun að fá skipið heim og mun það styðja enn betur við stefnu fyrirtækisins um ábyrgar veiðar, hátæknivinnslu og vörugæði sem leiðir til framleiðslu afurða úr fyrsta flokks hráefni.