Skrifað var undir samninga við Skagann 3X og Ísfell ehf. á sjávarútvegssýningunni í Brussel
Penninn var á lofti á sjávarútvegssýningunni sem haldin var í Brussel dagana 7-9 maí. Greint hefur verið frá samningnum við Marel um RoboBatcher innleiðingu en einnig var skrifað undir samninga við Skagann 3X og Ísfell ehf. á búnaði fyrir nýja Pál Jónsson, línuskipið sem væntanlegt er til landsins í haust.
Með samningnum við Ísfell ehf. staðfesti Vísir kaup á Mustad Autoline línukerfi til uppsetningar í skipinu. Verður Páll Jónsson fyrsta íslenska skipið með sjálfvirku rekkakerfi sem léttir á álagi og vinnu um borð.
Vísir og Skaginn 3X skrifuðu undir (samstarfssamning eða samstarfsverkefni) um uppsetningu vinnslubúnaðar sem bætir alla aflameðhöndlun, svo sem blæðingu, kælingu, flokkun og frágang afla í lest. Verkefnið er að hluta til unnið með Marel, sem mun meðal annars sjá um flokkara og annan búnað.
„Lausnin um borð í Páli Jónssyni hefur verið unnin í nánu og góðu samstarfi við sérfræðinga Marels og Skagans 3X og stuðlar að áframhaldandi framleiðslu á framúrskarandi matvælaafurðum,” sagði Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis um verkefnið.
Nýja skipið mun því styðja enn betur við stefnu fyrirtækisins um ábyrgar veiðar, hátæknivinnslu og vörugæði sem leiðir til framleiðslu afurða úr fyrsta flokks hráefni.