50 ára afmæli Vísis
Fjölmennt var á opnu húsi Vísis á sjómannadaginn í tilefni af 50 ára afmæli fyrirtækisins þar sem gestir og gangandi skoðuðu fiskvinnslur fyrirtækisins undir leiðsögn eigenda og starfsmanna. Gestum var boðið að smakka dýrindis fiskrétti eldaða úr afurðum Vísis við undirleik lifandi tónlistar auk þess sem Vísiskórinn tók nokkur lög við mikinn fögnuð gestanna.
Einnig var skrifað undir 3 ára styrktarsamning við Björgunarsveitina Þorbjörn þar sem Vísir styrkir björgunarsveitina um 3 milljónir króna á ári. Í tilefni af afmælinu færði Vísir einnig björgunarsveitinni 700.000 kr peningagjöf fyrir kerru undir nýja bátinn. Björgunarsveitin var afar ánægð með samninginn og gjöfina og þakkaði fyrirtækinu ómetanlegan stuðning.
Að kvöldi sjómannadags voru svo haldnir Minningartónleikar um Palla og Möggu, stofnendur Vísis, þar sem börn þeirra fluttu lög af geisladiskum sínum "Lögin hennar mömmu" og "Lögin hans pabba". Hljómdiskarnir voru til sölu um helgina og seldust mjög vel en allt andvirði sölunnar rennur til Grindavíkurkirkju.
Landskunnir hljóðfæraleikarar undir stjórn Vilhjálms Guðjónssonar spiluðu með systkinunum á tónleikunum ásamt góðum gestasöngvurum. Gestasöngvarar voru barna- og barnabarnabörn Palla og Möggu, Agnar Steinarsson og sjálfur konungur sjómannalaganna Ragnar Bjarnason.
Kirkjan var troðfull út að dyrum og skemmtu tónleikagestir sér konunglega og sungu með af innlifun undir lokin.