Fjölmennt á bryggjunni við komu nýja Páls Jónssonar GK 7
Nýr Páll jónsson sigldi tignarlega inn í Grindavíkurhöfnina rétt eftir hádegi í gær. Heimferðin tók hálfan sjöunda sólarhring og var bræla stóran hluta þess tíma. Að sögn Gísla V. Jónssonar skipstjóra kom skipið vel út í þeim aðstæðum þar sem þeir fengu á sig vitlaust veður nánast alla heimsiglinguna, ýmist á hlið eða móti.
Fjölmennt var á bryggjunni til að taka á móti skipinu. Eftir að Séra Elínborg Gísladóttir, prestur í Grindavík blessaði skipið gátu gestir skoðað sig um borð. Boðið var upp á kaffi og kleinur í hliðartjaldi sem Björgunarsveitin setti upp en veðrið hélst ágætt þrátt fyrir nokkra rigningadropa.
Þetta var ánægjuleg stund og gaman að sjá hversu margir komu og fögnuðu áfanganum. Yngri kynslóðin lét sig nú heldur ekki vanta og fengu að prófa skipstjórastólinn hans Gísla eins og sést á meðfylgjandi myndum.
Myndirnar tóku Jón Steinar Sæmundsson og Sólný Pálsdóttir.