„Gulbínói“ á línuna hjá Páli Jónssyni GK
25.01.2021
Það er ekki að ástæðulausu að talað er um þorskinn sem þann gula. Þessi þorskur kom með aflanum úr Víkurál með Páli Jónssyni á föstudaginn. „Ég hef einu sinni áður séð svona fisk með berum augum og það var úti á Nýfundnlandi. Þetta ku vera tilkomið vegna meðfædds erfðagalla þar sem það vantar allar eðlilegar litafrumur í roðið. Það eru svo sannarlega til öðruvísi einstaklingar þarna úti í náttúrunni eins og í samfélagi okkar mannanna“ segir Jón Steinar verkstjóri.
Drangavík VE frá Vinnslustöðinni veiddi slíkan fisk 9 mílur vestur af Surtsey í mars á síðasta ári. Vinnslustöðin hafði þá samband við Gísla Jónsson, sérgreinalækni fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun, sem þótti ótrúlegt að sá guli hefði lifað af og sagði: „Mér sýnist á öllu að hér sé um meðfæddan erfðagalla að ræða. Þetta er „hvítingi“ (réttara væri að kalla hann „gulingja“ þegar um þorsk er að ræða!). Það vantar allar eðlilegar litafrumur í roðið og þess vegna fær það þennan glæra og gulleita blæ,“ segir Gísli um fiskinn. Náttúran er afar „grimm“ í svona frávikum. Slíkir einstaklingar lenda í miklu einelti og eru yfirleitt drepnir af „félögunum“ á fyrstu þroskastigum. Þessi fiskur hefur einhverra hluta vegna náð að smjúga framhjá „afætum“ náttúrunnar og það er afar merkilegt.“