Prófanir á nýja Páli Jónssyni eru á lokametrunum
Hér má sjá nýja Pál Jónsson sem er við höfn í Gdansk í Póllandi. Það styttist í komu skipsins til landsins en Kjartan Viðarson útgerðarstjóri Vísis tók meðfylgjandi myndir í síðustu ferð sinni út þar sem hann fylgdist með gangi mála. Samkvæmt Kjartani þá er skipið á lokametrunum í prófunum þessa dagana. ,,Þessa dagana er verið að gera prófanir á skipinu til þess að passa upp á að allt standist áður en skipinu er siglt heim. Það er allt að gerast og kemur vonandi í ljós í lok vikunnar nákvæmlega hvenær skipið kemur en svona ferli getur oft tekið lengri tíma en áætlað er. Við höfum brennt okkur á því að fá skipin of snemma heim t.d. þegar Sighvatur beið eftir fiskvinnslubúnaði og því að endanleg pappírsgerð kláraðist. Því verður passað upp á með nýja Pál Jónsson að þessi mál séu öll klár áður en það fer úr höfn.”
Þetta er fyrsta nýsmíðin af þessarri stærðargráðu í rúmlega 50 ára sögu Vísis. Skipið mun hafa Mustad Autoline línukerfi frá Ísfell ehf. og verður þar með fyrsta íslenska skipið með sjálfvirku rekkakerfi sem léttir á álagi og vinnu um borð. Skaginn 3X sér um uppsetningu vinnslubúnaðar sem bætir alla aflameðhöndlun, svo sem blæðingu, kælingu, flokkun og frágang afla í lest. Verkefnið er að hluta til unnið í samstarfi við Marel sem mun meðal annars sjá um flokkara og annan búnað um borð. Það ríkir mikil tilhlökkun að fá nýja Pál Jónsson til landsins og mun skipið styðja enn betur við stefnu fyrirtækisins um ábyrgar veiðar, hátæknivinnslu og vörugæði sem leiðir til framleiðslu afurða úr fyrsta flokks hráefni.