Samstarf við nýsköpunarfyrirtækið Öldu á þróun gagnadrifins öryggisstjórnunarkerfis fyrir fiskiskip gengur vonum framar
Fimm útgerðir, á sjötta tug skipstjórnenda og á fimmta hundrað sjómenn eru nú þátttakendur í notendaprófunum á Öldu. Sjómenn okkar um borð í Páli Jónssyni hafa prufukeyrt snjallsímaforritið frá því í febrúar og bera því söguna vel.
Benni Palli skipstjóri sagði okkur stuttlega frá þeirra reynslu á öryggisstjórnunarkerfinu og hvernig gengið hefur að fá sjómenn til að tileinka sér þessa nýju leið.
,,Okkur hérna á Páli hefur gengið mjög vel að tileinka okkur nýja appið, það hefur verið mjög gott samstarf með hönnuðum appsins, allar okkar tillögur hafa verið lipurlega afgreiddar fljótt og örugglega. Strákarnir um borð eru áhugasamir enda held ég að þetta sé einmitt leiðin til að auka öryggisvitund um borð í skipunum hjá okkur, síminn er jú nánast alltaf við höndina. Að hafa aðgengi að öllum upplýsingum varðandi öryggismál á einum stað í appinu hvort sem menn eru um borð eða í landi í fríi er náttúrulega tær snilld. Einnig auðveldar það okkur stjórnendunum að skipuleggja æfingar, koma tilkynningum áleiðis og halda utan um öryggismál yfir höfuð. „
Tilgangur Öldu er að nútímavæða öryggisstjórnun til sjós með nýsköpun og stafrænum lausnum í samvinnu við íslenska sjómenn, útgerðir og sjávarútveg. Þetta eru ákveðin tímamót í forvörnum öryggismála sjómanna. Við hjá Vísi erum afar ánægð með samstarfið og að vera þátttakendur í þessari þróun með frumkvöðlum Öldu.