Þremur sjötugsafmælum starfsmanna Vísis var fagnað nú í kringum sjómannadagshelgina
Þremur sjötugsafmælum starfsmanna Vísis var fagnað nú í kringum sjómannadagshelgina. Þeir Gísli V. Jónsson skipstjóri og Ingibergur Magnússon vélstjóri urðu sjötugir í fyrra. Bókarinn okkar, Guðbrandur Sigurbergsson, varð svo sjötugur 7. júní. Allir hafa þeir fylgt okkur lengi og sýnt fyrirtækinu og öðrum starfsmönnum mikla hollustu og vinsemd. Við hjá Vísi erum einstaklega þakklát fyrir gott samstarf við þá í gegnum tíðina.
Boðið var til hádegisverðarfundar með sjómönnum fyrirtækisins og mökum þeirra í tilefni sjómannadagsins síðastliðinn föstudag, 4. júní. Þá voru þeim félögum Gísla og Ingibergi veittar gjafir í tilefni sjötugsafmælisins en Covid hafði komið í veg fyrir að gott tækifæri gæfist til þess í fyrra.
Gaman er að segja frá því að þeir Gísli og Ingibergur kynntust fyrst sex ára gamlir þegar þeir byrjuðu skólagöngu sína í skólanum á Stokkkseyri. Þeir stóðu svo saman hlið við hlið á fermingardaginn í Stokkseyrarkirkju árið 1950. Og nú stóðu þeir enn á ný hlið við hlið og fögnuðu sjötugsafmælinu. Þeir hafa starfað saman með hléum í gegnum starfsævina. Nú hafa þeir starfað saman samfellt í 22 ár. Stóran hluta af þeim árum voru þeir á Páli Jónssyni GK og tóku saman við nýja Páli Jónssyni þegar hann kom inn í flotann á síðasta ári.
Einnig er gaman að segja frá því að Guðbrandur, bókarinn okkar, hefur verið okkur innan handar frá því að hann útskrifaðist úr bókaranáminu. Strax að loknu námi hóf hann störf hjá Þórarni Þ. Jónssyni endurskoðanda og meðal verkefna þar var að færa bókhald Vísis. Síðar stofnaði hann svo sína eigin stofu og sá áfram um bókhaldið fyrir Vísi. Hann færði sig svo alveg yfir til okkar og hefur starfað við hlið okkar síðan, við gott orðspor.
Á þeim 40 árum sem Guðbrandur hefur fært bókhald Vísis við góðan orðstír hefur hann fylgst manna best með framvindu félagsins í ölduróti sögunnar. Á sama tíma hefur hann reynst góður vinur samstarfsmanna sinna sem og traustur ráðgjafi í flóknum málum af öllu tagi. Við óskum honum innilega til hamingju með sjötugsafmælið.