Vísir hlaut Þekkingarverðlaunin 2018
Vísir hf. hlaut Íslensku þekkingarverðlaunin í ár en Vísir ásamt Arion banka, HB Granda og Skagans 3X voru tilnefnd til þekkingarverðlauna Félags viðskipta- og hagfræðinga. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á Íslenska þekkingardeginum í Iðnó á föstudaginn.
Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, veitti verðlaununum viðtöku og var að vonum ánægður með viðurkenninguna: „Þetta er góð viðurkenning fyrir þá vinnu sem starfsfólk okkar hefur unnið síðasta áratuginn og mikil hvatning til að halda áfram á sömubraut.“ Pétur sagði einnig að það að þrjú af tilnefndu fyrirtækjunum kæmu úr sjávarútvegi væri „staðfesting á því hvar sjávarútvegurinn stendur í tæknibyltingunni. Samstarf sjávarútvegsins og tæknifyrirtækjanna væri að verða mjög sýnilegt.“
Við val á þekkingarfyrirtæki ársins 2018 var horft til þeirra fyrirtækja sem eru leiðandi í stafrænum lausnum og hafa með nýsköpun í tækni bætt rekstrarumhverfi fyrirtækisins. Leitað var eftir fyrirtækjum sem hafa með aukinni sjálfvirkni bætt þjónustu, afköst, nýtingu og/eða framleiðni. Einnig var mikilvægt að fyrirtækin starfi í sátt við samfélagið og séu með ríka umhverfisvitund.
Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að Vísir hafi náð eftirtektarverðum árangri í rekstri sínum og aukið framleiðni og skilvirkni með innleiðingu og þróun stafrænna lausna. Vísir hafi með innleiðingu stafrænna lausna náð hagræðingu í rekstri með virkri stýringu flotans, nýtingarauka og hærra hlutfalli í betur borgandi afurðir. Þannig opnar tæknin þann möguleika að Vísir klári framleiðsluferlið beint í neytendapakkningar sem spara milliflutninga og milliumbúðir, en það sé stórt skref í að minnka kolefnisspor sjávarútvegsins ennfrekar.
Þetta var í 18.sinn sem félagið stendur fyrir Íslenska þekkingardeginum og hér má sjá lista yfir þau fyrirtæki sem hafa hlotið Þekkingarverðlaun FVH (tilnefnd fyrirtæki innan sviga):
2000 Íslensk erfðagreining (Búnaðarbankinn, Hugvit, Össur)
2002 Marel (Bakkavör, Íslensk erfðagreining, Össur)
2003 Íslandsbanki (Kaupþing, Össur, Landsbankinn)
2004 Actavis (Pharmaco) (KB-banki, Baugur Group, Medcare Flaga)
2005 KB-banki (Baugur Group, Össur)
2006 Actavis (Avion Group, Bakkavör)
2007 Actavis (Marel, Össur)
2008 Össur (Norðurál, Kaffitár)
2009 CCP (Marel, Össur)
2010 Fjarðarkaup (CCP, Icelandair, Össur)
2011 Icelandair (Rio Tinto Alcan á Ísland, Samherji)
2012 Marel (Eimskip, Landspítali háskólasjúkrahús)
2013 Bláa lónið (Icelandair Group, True North)
2014 Ölgerðin (Össur, Já og LS Retail)
2015 Kerecis (ORF Líftækni, Carbon Recycling International)
2016 Íslandsbanki (Kolibri, Reiknistofa bankanna)
2017 Bláa lónið (Norðursigling, Íslenskir fjallaleiðsögumenn)
2018 Vísir hf. ( Arion banki, HB Grandi, Skaginn 3X)
Hér má nálgast fleiri myndir frá Íslenska þekkingardeginum 2018